Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Allt sem er frábært
Sunnudagur 13. janúar 2019 kl. 07:00

Allt sem er frábært

Fór á leiksýningu sl. föstudag sem er ekki í frásögur færandi nema þessi leiksýning hreyfði við mér. Tímapunkturinn var frábær, nýtt ár að hefjast, tímamót þar sem margir velta fyrir sér því sem liðið er og setja sér ný markmið fyrir komandi ár. Sjálf er ég sek um að setja mér markmið reglulega, næ þeim svo sem ekki öllum en áramót eru fyrir mér ákveðið uppgjör við sjálfa mig. Svona eins og ársuppgjör hjá fyrirtækjum. Í þessari naflaskoðun finnst mér mikilvægt að vera hreinskilin og gefa engan afslátt til að fá sem skýrasta mynd af árangri ársins. Sjálfsblekking hjálpar engum svo ég vitni í Albert Einstein sem sagði: „If you always do what you have always done, you will always get what you always got.“ Eða, ef þú gerir hlutina alltaf á sama hátt geturðu ekki búist við nýrri niðurstöðu. 
 
Þá aftur að leiksýningunni, sem  fjallaði þó ekki um markmið heldur frekar um viðhorf. Hún sagði sögu drengs sem ólst upp af þunglyndri móður, móður sem reyndi ítrekað að taka eigið líf.  Drengurinn brá á það ráð, þegar hún reyndi að svipta sig lífi í fyrsta skipti, hann einungis sjö ára, að skrifa niður á blað öll þau atriði í sínu daglega lífi sem honum fannst frábær. Listinn hans „Allt sem er frábært“ fylgdi honum alla tíð og taldi undir lok 10.000 atriði. Þessi listi hjálpaði honum í sínu lífi og ítrekað reyndi hann að fá bæði mömmu sína og pabba til þess að lesa listann, með misgóðum árangri þó.
 
Ástæða þess að leiksýningin fékk mig til að tengja við áramótaheit er sú staðreynd að við erum mjög gjörn á að fókusera á það sem er erfitt, vonlaust og leiðinlegt í stað þess að veita öllu því jákvæða í okkar lífi athygli. Lífið er í eðli sínu endalaus listi af áskorunum og verkefnum til að leysa og ákvörðunum sem þarf að taka. Ef viðhorfið til allra þessara verkefna og ákvarðana er að þau séu eingöngu erfið og leiðinleg þá verður lífið frekar vonlaust og þungt.
 
Lífið er í eðli sínu erfitt og krefst mikillar vinnu. Ef viðhorf okkar er það að lífið eigi að vera auðvelt þá mun það koma manni leiðinlega á óvart og litast af erfiðleikum og vonleysi. Maður getur þannig orðið fórnarlamb eigin viðhorfs og endað á því að finnast heimurinn skulda sér.
 
Bara smá hugvekja í upphafi nýs árs. Minnum okkur á við erum eigendur okkar lífs og með réttu viðhorfi getum við stýrt okkar eigin lífshamingju.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024